Innlent

Bíða viðbragða félagsmálaráðherra

Búist er við að félagsmálaráðuneytið svari greinargerð Alþýðusambandsins um gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á Impregilo í dag eða á morgun en greinargerðin var send ráðuneytinu á sunnudaginn var. Greinargerðin verður lögð fyrir miðstjórnarfund ASÍ á morgun og kynnt fjölmiðlum. "Mér skilst að ráðuneytismenn séu að lesa greinargerðina. Þetta er myndarleg greinargerð upp á 20 síður eða svo. Við höfum ekki verið í miklum samskiptum við ráðuneytið í dag en mér skilst að þeir þurfi tíma til að fara í gegnum þetta," segir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ. Útgáfa atvinnuleyfa til Kínverjanna 54, sem Impregilo hefur sótt um undanþágu fyrir, er í biðstöðu meðan verið er að fara yfir lög og reglur varðandi útgáfu atvinnuleyfa og skuldbindingar Íslendinga á Evrópska efnahagssvæðinu. "Við höfum líka vakið máls á því að í þessu máli eru líka atriði sem snúa almennt að vinnumarkaðnum, framboði og eftirspurn og hvernig þau mál þróast. Við erum ekki sátt við að fyrirtæki geti mótað sér þá stefnu að halda sig við lágmarkslaun. Auðvitað bera stjórnvöld ábyrgð á því að halda eðlilegu vægi milli framboðs og eftirspurnar. Það gefur auga leið að ef stuðlað er að offramboði á einhverju þá hefur það áhrif á verðið," segir Gylfi. Vinnumálastofnun var búin að gefa vilyrði fyrir undanþágu fyrir 54 manna hópinn og segir Gylfi að gerð hafi verið athugasemd við það hvaða heimild sé til þess að gefa vilyrði eða fyrirheit fyrir flýtimeðferð. "Það verður náttúrulega að fara að reglunum. Ég ætla ekki að tjá mig um það hvort starfsmenn geti verið með einhverjar aðrar reglur," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×