Innlent

Ígildi góðrar starfslokagreiðslu

Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða á almennum markaði er 11 prósent meðan ríkið tryggir starfsmönnum sínum réttindi sem nemur 15,5 prósenta framlagi í lífeyrissjóð. Opinber starfsmaður fær 93,5 prósent af meðaltals mánaðarlaunum í ellilífeyri en sjóðfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna fær t.d. 69,3 prósent miðað við sömu forsendur. Reynist framlag ríkis og starfsmanna ekki nóg til að standa undir réttindunum eykur ríkið framlag sitt meðan aðrir lífeyrissjóðir skerða réttindi sjóðfélaga. Skuldbinding ríkisins nemur hundruðum milljarða króna. Miðað við 250 þúsund króna mánaðarlaun og 3,5 prósenta vexti jafngildir umframréttur opinberra starfsmanna 10 milljóna starfslokagreiðslu borið saman við verslunarmenn. Miðað við 500 þúsund króna mánaðarlaun er rétturinn ígildi 20 milljóna starfslokagreiðslu. Pétur Blöndal alþingismaður segist oft hafa bent á þennan mun og hann væri í fínu lagi ef opinberir starfsmenn kynnu að meta þessi réttindi sín. "Í síðustu samningum kennara jókst skuldbinding ríkissjóðs um 10 milljarða eða um 2,5 milljónir á hvern starfandi kennara. Í samningunum fyrir 3-4 árum jókst skuldbindingin um 23 milljarða eða um 5 milljónir á hvern starfandi kennara. Skuldbinding ríkissjóðs hefur vaxið um 7,5 milljónir á starfandi kennara í tveimur síðustu samningum og samt er ríkið ekki aðili að þeim samningum," segir hann. Þessa skuldbindingu greiða skattgreiðendur og það segir Pétur að væri í lagi ef opinberir starfsmenn kynnu að meta það en það geri þeir ekki því "þeir krefjast launa eins og gengur á almennum markaði." Í stað þess að opinberir starfsmenn velji milli þess að hafa há laun og venjuleg lífeyrisréttindi eða lægri laun og góð lífeyrisréttindi vilji þeir hvort tveggja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×