Innlent

Þáðu eftirlaun í fullu starfi

Sjö fyrrverandi ráðherrar þáðu sautján milljónir króna í eftirlaun á síðasta ári á sama tíma og þeir gegndu fullu starfi á vegum hins opinbera. Launagreiðslurnar eru tilkomnar vegna lagabreytinga sem meðal annars höfðu það markmið að draga úr sókn gamalla þingmanna í embætti í stjórnkerfinu. Ráðherrarnir fyrrverandi eiga heima í almennum lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að mati formanns BSRB. Halldór Blöndal, forseti Alþings, mælti fyrir lagafrumvarpinu árið 2003 og sagði eitt af markmiðum þess að draga úr sókn gamalla þingmanna í embætti í stjórnkerfinu. Frumvarpið rýmkaði heimlidir til töku eftirlauna til muna og það samþykktu 29 þingmenn stjórnarflokkanna auk Guðmundar Árna Stefánssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Í lögunum er meðal annars kveðið á um að ráðherrar eigi rétt á eftirlaunum láti þeir af störfum við sextíu ára aldur og aldursmarkið lækkar hafi þeir starfað sem ráðherrar í sex ár eða lengur. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að aðeins einn þeirra sjö fyrrverandi ráðherra, sem nú þiggja eftirlaun, hefði öðlast þau réttindi áður en Alþingi samþykki lögin. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, segir að nú sé að koma í ljós á áþreifanlegan hátt hversu mikið reginhneyksli hin sérsaumuðu lífeyrislög fyrir þingmenn og ráðherra hafi verið. Þeir eigi heima í almennum lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eins og allir aðrir sem starfi fyrir hið opinbera. Því hafi verið hafnað á sínum tíma, m.a. á þeirri forsendu að ráðherrar og þeir sem hefðu lengi gegnt þingmennsku gætu ekki komist í önnur störf. Nú sé að koma á daginn hversu mikil firra það hafi verið að halda slíku fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×