Innlent

Sérsniðin lífeyrislög hneyksli

Nú er að birtast sá veruleiki sem margir sáu fyrir þegar lífeyrisfrumvarpið var samþykkt að mati Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstri-grænna. Komið er í ljós að sjö fyrrverandi ráðherrar fengu samtals rúmar sautján milljónir króna í eftirlaun á liðnu ári þrátt fyrir að vera enn í fullu starfi á vegum hins opinbera. Með lögum um eftirlaun þingmanna og ráðherra, sem voru samþykkt á Alþingi í desember árið 2003, voru heimildir til töku eftirlauna rýmkaðar og aðeins einn þeirra sjö sem nú þiggja eftirlaun hafði öðlast réttindi til þeirra fyrir gildistöku nýju laganna. "Auðvitað var það reginhneyksli að sníða sérstök lög að þörfum þessa hóps," segir Ögmundur. "Nær hefði verið að þingmenn og ráðherrar færu inn í almennan lífeyrissjóð." Halldór Blöndal, forseti Alþings, mælti fyrir frumvarpinu á sínum tíma og sagði að eitt af markmiðum þess væri að draga úr sókn gamalla þingmanna í embætti í stjórnkerfinu og tryggja afkomu þeirra sem ekki kæmust í önnur störf að lokinni þingmennsku. Ögmundur segir að nú komi í ljós að það hafi verið meginfirra. "Tilgangur frumvarpsins var að annars vegar að búa þingmönnum og ráðherrum betri lífeyriskjör en almennt gerist og hins vegar að gefa þeim kost á að fara fyrr á lífeyri en fólk almennt á rétt á. Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þessi veruleiki hafi legið fyrir þegar lögið voru samþykkt á þingi. "Það var tekin umræða um að það væri ekki girt fyrir að þessi staða gæti komið upp. Í þessum tilvikum geta menn öðlast lífeyrisréttindi áður en að hefðbundnum starfslokaaldri er náð." Bjarni segir þetta einkum eiga við þá sem hafa starfað mjög lengi í stjórnmálum og hafa náð því að vera ráðherrar eða forsætisráðherrar. "Ég hef engar athugasemdir við að þeir sem gegnt hafa forsætisráðherraembætti njóti góðra lífeyriskjara. Viðkomandi hafa gegnt miklum trúnaðarstörfum fyrir þjóðina."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×