Innlent

Össur fái aðeins laun frá flokknum

Formaður Samfylkingarinnar má ekki þiggja laun fyrir það starf frá öðrum en flokknum ef tillaga Birgis Dýrfjörð verður samþykkt á komandi landsþingi flokksins. Samkvæmt eftirlaunalögunum sem samþykkt voru í lok árs 2003 fá formenn stjórnmálaflokka á þingi um 230.000 krónur á mánuði auk þingmannalauna. Birgir segir óþolandi að það séu óviðkomandi kostunaraðilar sem greiði formönnum stjórnmálaflokka laun. "Flokkarnir eiga að gera það sjálfir," segir Birgir. "Forseti Alþýðusambands Íslands kallaði þetta dúsu á sínum tíma vegna þess að formenn stjórnarandstöðuflokkanna samþykktu eftirlaunalögin með þessari viðbót. Ég kalla þessa menn pólitískar portkonur. Þetta var þóknun fyrir að samþykkja frumvarpið." Birgir segist ekki geta ímyndað sér annað en að tillagan verði samþykkt á landsfundi Samfylkingarinnar og segist hafa fengið mikinn stuðning við hana innan flokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×