Erlent

Bandaríkin ætla að frelsa fleiri

Condoleezza Rice sat fyrir svörum í Öldungadeild Bandaríkjaþings í gærkvöldi í tengslum við embættistöku hennar sem utanríkisráðherra landsins. Þar sagði hún að forgangsverkefni væri að laga samskipti Bandaríkjanna við bandamenn í kjölfar Íraksstríðsins. Það virðist hins vegar liggja í loftinu að fleiri innrásir séu á teikniborði Bandaríkjastjórnar. Því er haldið fram að sérsveitarhermenn séu þegar að störfum í Íran og að það land sé næst á árásarlista Bandaríkjanna. Þá vakti það mikla athygli að Rice nefndi í gær sex lönd sem hún sagði vera útverði harðræðis í heiminum og þar yrðu Bandaríkin að aðstoða fólk og frelsa. Þessi lönd væru Kúba, Íran, Norður-Kórea, Zimbabwe, Búrma og Hvíta-Rússland. Þessi upptalning Rice þykir minna á lista Bush Bandaríkjaforseta um öxulveldi hins illa og leggja línurnar um utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar næstu fjögur árin. Og meira af Bush - forsetinn verður formlega svarinn í embætti, annað kjörtímabilið í röð, á morgun fimmtudag. Tónleikar, dansleikir, móttökur, kvöldverðir og alls konar uppákomur verða haldnar af þessu tilefni og sjálfur verður Bush á ferð og flugi, ávarpar landa sína, hittir hermenn sem eru nýkomnir frá Írak og ræðir við ungt fólk. Áætlað er að þessi herlegheit öll muni kosta um 40 milljónir Bandaríkjadollara eða um 2,5 milljarða íslenskra króna. Margir hafa orðið til þess að gagnrýna þetta bruðl á þessum síðustu og verstu tímum, nú þegar bandaríska þjóðin á í stríði og fjárlagahallinn fer vaxandi. Bush sjálfur hvetur samlanda sína til að grafa stríðsaxirnar eftir erfiða kosningabaráttu og sameinast um þau verkefni sem bíða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×