Innlent

Stuðningurinn aldrei ræddur

Veturinn 2002 til 2003 voru málefni tengd Írak einungis til umræðu á tveimur fundum utanríkismálanefndar. Á hvorugum þeirra var ræddur hugsanlegur stuðningur Íslendinga við innrásina í Írak heldur var einungis rætt um tiltekin mál er vörðuðu skýrslu vopnaleitarmanna og þingsályktunartillögu Vinstri grænna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sat Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, fund utanríkismálanefndar 19. febrúar. Hann gerði nefndinni grein fyrir skýrslu Hans Blix, yfirmanns vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna, til öryggisráðs SÞ. Ekki var rætt um það á fundinum hvort Íslendingar ættu að styðja innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak ef til hennar kæmi. Síðari fundurinn fór fram 2. mars þar sem rætt var um þingsályktunartillögu Vinstri grænna um að ríkisstjórnin beitti sér gegn áformum um innrás í Írak og að Ísland stæði utan við hvers kyns hernaðaraðgerðir gegn Írak. Ekki var rætt um það á fundinum hvort Íslendingar ættu að styðja innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak ef til hennar kæmi. "Ég hef farið yfir málið í mínum gögnum og fæ ekki betur séð en að umræður um ástandið í Írak hafi farið fram tvisvar sinnum í nefndinni þennan vetur. Hinn einfaldi sannleikur er sá að það var aldrei rætt um stuðning við innrás Breta og Bandaríkjamanna í nefndinni," segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×