Erlent

Listinn ekki lengur notaður

Ísland er ekki lengur á neinum lista yfir bandamenn Bandaríkjanna í Íraksmálinu, samkvæmt því sem Reuters-fréttastofan hafði eftir ónefndum bandarískum embættismanni í gær. Fréttin birtist í New York Times í gær, daginn eftir að heilsíðuauglýsing frá Þjóðarhreyfingunni birtist í sama dagblaði. Ísland var á lista yfir 45 ríki hinna "viljugu bandamanna" sem Bandaríkjastjórn birti þegar innrás var gerð í Írak til þess að sýna fram á að Bandaríkin nytu víðtæks stuðnings meðal ríkja heims til þess að gera þessa innrás. Í stað þessa lista notast bandarísk stjórnvöld nú við annan lista yfir 28 ríki sem öll eru með hermenn á sínum vegum í Írak. Heimildarmaður Reuters-fréttastofunnar gat ekkert sagt um það hvenær eða hvers vegna hætt var að notast við gamla listann. Allt þetta kom reyndar fram á blaðamannafundi með Richard Boucher, talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins, sem haldinn var þann 20. ágúst árið 2003. Þar sagði Boucher að 27 ríki auk Bandaríkjanna hefðu sent hermenn til Íraks, og var Ísland ekki þar á meðal. Einnig sagði hann að fjögur önnur ríki hafi skuldbundið sig til að senda hermenn til Íraks, og Ísland var heldur ekki meðal þeirra. Ísland var hins vegar í hópi þeirra þrjátíu ríkja, sem Boucher nefndi á blaðamannafundi 18. mars árið 2003. Hann fullyrti þar að þessi þrjátíu ríki hefðu verið spurð hvort þau vildu vera á lista yfir þau ríki sem styddu hugsanlega innrás í Írak, og svarað játandi. Hann sagði jafnframt að "nærri öll" þeirra myndu leggja eitthvað af mörkum til innrásarinnar. Í fréttinni frá Reuters er rætt við bæði Illuga Gunnarsson, aðstoðarmann Davíðs Oddsonar, Ólaf Hannibalsson, talsmann Þjóðarhreyfingarinnar, og Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðing.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×