Innlent

Vísa skoðun prófessors á bug

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar vísa algerlega á bug þeirri skoðun forseta lagadeildar Háskóla Íslands að oddvitum ríkisstjórnarinnar hafi verið heimilt að styðja innrásina í Írak án samráðs við Alþingi og utanríkismálanefnd. Þeir segja Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson klárlega hafa brotið lög og formaður Vinstri - grænna útilokar ekki að það geti leitt til afsagnar þeirra. Eiríkur Tómasson, forseti lagadeildar HÍ, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu klárlega haft lagalega heimild til taka þá ákvörðun að styðja innrásina í Írak án þess að ræða málið í utanríkismálanefnd áður eða leita samþykkis Alþingis. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, undrast þessi ummæli lagaprófessorsins og segist sjálfur hafa undir höndum gögn sem sýni að ekki hafi verið haft samráð við utanríkismálanefnd. Það sé lögbrot og beri að kalla það því nafni. Valdið komi ekki úr brjóstum Halldórs og Davíðs heldur frá þjóðinni í gegnum þingmeirihlutann sem þeir styðjist við. Steingrímur segir einnig að það liggi fyrir að þeir hafi ekki kannað fyrir fram afstöðu Alþingis eða meirihluta þess. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, er sammála Steingrími og vísar enn fremur til þess sem segir í 21. grein stjórnarskrárinnar. Þar standi klárt og kvitt að ekki sé hægt að setja kvaðir á land nema samþykki Alþingis komi til. Össu spyr hvort hægt sé að hugsa sér meiri kvöð á land sem sé undir forsjá þingsins en þá að leyfa herjum sem eru á leið til innrásar í annað ríki afnot af því. Hann haldi ekki og því finnist honum að minnsta kosti einnar messu virði að skoða hvort aðildin að stríðinu brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Steingrímur segir að hafi þessir menn framið lögbrot þá verði þeir að sæta ábyrgð og vísar til þess að í nágrannaríkjum hafi sambærileg mál leitt til afsagnar ráðherra. Þar á hann við Tamílamálið í dönskum stjórnmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×