Innlent

Sakar stjórnvöld um sofandahátt

Sofandaháttur stjórnvalda hefur skapað gróðrarstíu fyrir ófyrirleitnar starfsmannaleigur sem grefur undan samfélagsgerðinni, sagði formaður Samfylkingarinnar í umræðu á Alþingi í dag um félagsleg undirboð á vinnumarkaði. Stjórnarliðar lýstu einnig áhyggjum af þróun mála. Fréttir af starfsmannamálum Impregilo við Kárahnjúka urðu tilefni umræðu sem Össur Skarphéðinsson hóf en hann sagði stjórnvöld hafa sofið á verðinum. Lausatök stjórnvalda hefðu skapað aðstæður sem væru orðnar að gróðrarstíu fyrir ófyrirleitnar starfamannaleigur og nú einskorðuðust félagsleg undirboð ekki lengur við verktakabransann heldur hefðu þau sáð sér eins og samfélagslegur sjúkdómur út í atvinnulífið. Við því hefði stjórnarandstaðan varað að myndi gerast ef stjórnvöld gripu ekki strax í taumana við Kárahnjúka. Stjórnarandstæðingar voru ekki einir um að lýsa áhyggjum. Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að húfi væru hagsmunir íslensks lauanfólks og ef félagsleg undirboð viðgengjust í framtíðinni væri ljóst að kaupmáttur almennings myndi minnka verulega. Árni Magnússon félagsmálaráðherra minnti á að ný reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga yrði gefin út á næstu dögum. Hann sagði ljóst að málið væri það umfangsmikið að því væri hvergi nærri lokið þrátt fyrir útgáfu reglugerðarinnar eða aðrar einstakar aðgerðir sem stjórnvöld hygðust grípa til á næstunni. Íslendingar þyrftu að viðhalda sínu kerfinu þótt það þyrfti ef til vill að aðlaga það að breyttum aðstæðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×