Erlent

Leiðtogafundur í Miðausturlöndum

Leiðtogafundur er næsta skref í friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Unnið er að því að byggja upp gagnkvæmt traust og efla samvinnu stjórnvalda Palestínumanna og Ísraela. Eftir fund í dag var greint frá leiðtogafundinum, sem verður þann áttunda febrúar næstkomandi, eða eftir rétt rúma viku. Greinilegt er að samskipti stjórnvalda í Ísrael og Palestínu eru nú allt önnur en verið hefur um langa hríð. Ehud Olmert, varaforsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að traust væri ferli en ekki einn einstakur punktur; eitthvað sem verði að byggja upp, hlúa að og styrkja. Þjóðirnar séu nú byrjaðar á því að nýju og hann kvaðst vona að að þessu sinni verði það sterkara og stöðugra. Árangur fundarins í dag var sá að Ísraelsmenn ætla að fela Palestínumönnum öryggismál í nokkrum bæjum á Vesturbakkanum þegar í þessari viku. Þar með má í raun segja að brottflutningur Ísraelshers frá Gasa sé hafinn, en verið er að kanna með hvaða hætti er hægt að leggja niður landnemabyggðir þar. Fulltrúar Palestínumanna voru bjartsýnir en varkárir í orðavali að loknum fundi dagsins. Ahmed Qureia forsætisráðherra sagði fundinn hafa verið uppbyggilegan og að hann vonaðist eftir að útfærslan yrði jákvæð. Hann vildi ekki tjá sig um væntingar sínar til fyrirhugaðs fundar Abbasar og Sharons.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×