Erlent

Bush orðinn sturlaður?

Fídel Kastró, leiðtogi Kúbu, sagði í gær að George Bush, forseti Bandaríkjanna, virtist vera orðinn sturlaður. Kastró lét þessi orð falla þegar hann ávarpaði kennararáðstefnu á Havana í gær. Ummæli hans koma í kjölfar þess að nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna lýsti á dögunum Kúbu sem einu af löndunum þar sem harðstjórar væru við völd. Kastró sagðist ekki ætla að flýja af hólmi ef til innrásar Bandaríkjamanna kæmi. Það væru enda betri örlög að deyja með sæmd í himnaríki en reyna að lifa af í helvíti. Kastró sagðist hafa sent Bush bréf þar sem hann harmaði það að Bush yrði væntanlega langt frá stríðsátökum ef til innrásar kæmi. Íbúar Kúbu væru hins vegar ekki hræddir, enda hefðu þeir sýnt það á dögum Kalda stríðsins að hótanir bitu ekki á þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×