Erlent

Palestínumenn fá 22 milljarða

Það þarf að skerða lífeyrisréttindi Bandaríkjamanna á næstu misserum, ekki er hægt að segja til um hvenær Bandaríkjamenn fara frá Írak og Palestínumenn fá tuttugu og tvo milljarða króna í styrk frá Bandaríkjamönnum á næstu árum. Þetta er meðal þess sem kom fram í stefnuræðu George Bush Bandaríkjaforseta í Washington í gær. Bush eyddi bróðurparti ræðu sinnar í innanríkismál og þá einkum félagsmál. Hann sagði að lífeyrisréttindi Bandaríkjamanna yrði að skerða á næstu árum og áratugum, enda stefndi í að lífeyrissjóðir landsins yrðu brátt gjaldþrota ef núverandi kerfi héldist óbreytt. Stjórnvöld gætu komið til móts við fólk með skattalækkunum í staðinn svo ungt fólk gæti fjárfest í verðbréfum og hlutabréfum til þess að búa í haginn fyrir efri árin.  Eins og oft áður hét Bush því að mæta af fullri hörku stjórnvöldum þeirra landa þar sem hryðjuverkamenn fengju að leika lausum hala. Nefndi hann Sýrland og Íran sérstaklega í því samhengi. Þá sagðist Bush mjög ánægður með þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs og hét því að Palestínumenn fengju 350 milljónir dollara í styrki frá Bandaríkjamönnum á kjörtímabilinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×