Innlent

Iceland fái ekki einkaleyfi

Formaður Vinstri grænna og starfandi utanríkisráðherra leggjast báðir gegn því að verslunarkeðjan „Iceland“ fái einkaleyfi á orðinu Iceland í löndum Evrópusambandsins. Þeir eru hins vegar ósammála um hvort það gæti verið mönnum til framdráttar að skrá sig fyrir léninu steingrimurjod.is. Stöð 2 greindi frá því í síðustu viku að fyrirtækið Iceland stefndi að því að fá víðtækt einkaleyfi á orðinu Iceland í löndum Evrópusambandsins og að fjölmörg íslensk fyrirtæki og hagsmunasamtök ætluðu að mótmæla þessu. Frestur til þess rennur út eftir tvær vikur. Steingrímur J. Sigfússon lagði fram fyrirspurn til Geirs H. Haarde, starfandi utanríkisráðherra, um hvort íslensk stjórnvöld ætluðu ekki að berjast gegn þessu. Og hann kvaðst vilja ganga lengra og spyrja hvort stjórnvöld ætluðu ekki að beita öllum tiltækum ráðum, þ.m.t. málaferlum.  Steingrímur vakti einnig máls á því að Baugur eignast meirihluta í Iceland innan skamms og hvatti stjórnvöld til að ná samkomulagi við eigendur þess um að fallið verði frá þessari umsókn. Geir var sammála Steingrími og sagðist ekki vita betur en utanríkisráðuneytið hefði þegar gripið til viðeigandi ráðstafana. Geir gat með engu móti séð hvað fyrirtækið teldi sig græða á að skrá enska heiti Íslands með þessum hætti; það hlyti einnig að geta skapað keðjunni vandræði. „Það myndi sjálfsagt valda mér erfiðleikum ef ég skráði mér lénið steingrimurjod.is,“ sagði Geir í ræðustól þingsins. Steingrímur kvaðst telja þetta misskilning hjá ráðherranum og frekar verða honum til framdráttar. Og bætti við: „Svo mikið er víst að ekki vil ég skipta og taka upp lénið geirhilmarhaarde.is.“  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×