Innlent

Aukin réttindi foreldra

Félagsmálaráðherra boðaði rétt fyrir hádegi umfangsmiklar breytingar á réttindum foreldra langveikra barna í fyrirspurnartíma sem nú stendur yfir á Alþingi. Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, bar upp fyrirspurnina um þennan rétt foreldra. Breytingarnar byggjast á tillögum nefndar sem fjallað hefur um aukinn rétt foreldra langveikra barna á vinnumarkaði síðastliðinn fjögur ár. Ráðherra kynnti ríkisstjórn tillögurnar í gær. Þar ber hæst að lagt verði til við Alþingi að foreldrarnir eigi rétt á greiðslu í allt að þrjá mánuði þegar börn veikjast alvarlega eða greinast með alvarlega fötlun. Gengið er út frá að greiðslurnar nemi um 90 þúsund krónum á mánuði og á kerfið að taka gildi á þremur árum. Þar að auki ætlar félagsmálaráðherra að leggja til við Alþingi að foreldrar barna sem veikjast mjög alvarlega eða greinast með mjög alvarlega fötlun eigi rétt á slíkum greiðslum í allt að níu mánuði. Hann sagði að 40 börn falli undir slíka skilgreiningu á hverju ári. Ráðherra sagði í lok svars síns að hann myndi beita sér fyrir því að tillögurnar kæmu sem fyrst til framkvæmda og að alls ekki væri útilokað að réttarstaða foreldra langveikra barna á vinnumarkaði yrði efld enn frekar. Margrét Frímannsdóttir Samfylkingunni sagðist aldrei þessu vant vilja þakka og hrósa ráðherra fyrir tillögur sínar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×