Erlent

Harka í þýsku kosningabaráttunni

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands hóf kosningabaráttu sína með formlegum hætti í dag. Kristilegir demókratar hafa langtum meira fylgi í skoðanakönnunum, en Schröder virðist ætla að treysta á eigin persónutöfra, reynsluleysi andstæðings síns, Angelu Merkel, og innanflokksdeilur hjá kristilegum til að hífa fylgið upp. Schröder hélt ræðu í heimaborg sinni, Hanover, í dag og markaði það upphaf kosningabaráttu kanslarans. Það er mjög á brattann að sækja fyrir hann, Sósíal demókratar mælast nú með um 28 prósenta fylgi, sem er tveimur prósentustigum meira en í síðustu könnun, en Kristilegir demókratar hafa tapað 2 prósentustigum, mælast nú með 41 prósents fylgi. Munurinn er samt þrettán prósentustig. Andstæðingur Schröders, Angela Merkel, hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar í fjölmiðlum, þar sem reynsluleysi og stirðbusaháttur hefur verið henni nokkur fjötur um fót. Ekki bætir úr skák að Edmund Stoiber, sem var kanslarakandídat kristilegra demókrata í kosningunum 2002, virðist harðákveðinn að valda uppnámi í kosningabaráttunni. Hann segir Austur-Þjóðverja hafa kosið Schröder og fer ófögrum orðum um landa sína austan gömlu landamæranna. Þannig hefur Stoiber kynt enn undir andúð milli Wessis, velmegandi, hrokafullra Vestur-Þjóðverja, og Ossis, sem er lýst sem síkvartandi, blönkum Austur-Þjóðverjum. Þessar yfirlýsingar hafa vakið litla kátínu, hvort sem er meðal þeirra sem Stoiber hefur svo sterkar skoðanir á eða flokkssystkina hans. Merkel mun hafa hringt í Stoiber til að segja honum að tjá sig ekki við fjölmiðla, en það dugði ekki til. Samstarfsmenn hans segja þetta úthugsaða aðferð til þess að vinna kjósendur í suðurhluta Þýskalands og að þeir sem hann móðgi séu hvort eð er ekki kjósendur kristilegra demókrata. Það verði Bæjaraland sem færi flokknum sigur og þar er Stoiber forsætisráðherra. Aðrir telja að Stoiber sé að hefna sín á Merkel og kenni henni um að hann varð ekki kanslari fyrir þremur árum. Og þessar deilur ætlar Schröder greinilega að nýta sér út í ystu æsar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×