Innlent

Blaðamannafundur á Hótel Nordica

Blaðamannafundur þar sem breskir lögfræðingar kynna skýrslu um Baugsmálið hófst á Nordica Hótel klukkan níu í morgun, en stjórn Baugs boðaði til fundarins. Breska lögfræðifyrirtækið sérhæfir sig í rannsóknum á fyrirtækjum, en það hóf að fara í gegnum ákærurnar í Baugsmálinu fyrir um fimm vikum. Var lögfræðingunum meðal annars veittur fullur aðgangur að málsskjölum, sakborningum, verjendum og starfsmönnum Baugs að því er fram kemur í tilkynningu frá Baugi. Þá eru verjendur sakborninga einnig á fundinum og munu svara spurningum blaðamanna er varða íslenskt réttarfar, að því er fram kemur í tilkynningunni. Baugsmálið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan hálf tvö í dag. Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi að hann teldi að héraðsdómur hefði verið blekktur þegar lögregla fékk húsleitarheimild hjá Baugi í ágúst 2002, þar sem byggt hafi verið á því að 60 milljónir hefðu verið teknar út úr Baugi sem hann segir ekki vera rétt. Jón Ásgeir sagðist þó treysta dómstólum ágætlega og að hann væri sannfærður um sýknu í málinu. Hann treysti þó hæstarétti síður og telur ljóst að Jón Steinar Gunnlaugsson sé óhæfur í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×