Innlent

Þakklátur fyrir traust borgarbúa

Flestir Reykvíkingar vilja að Gísli Marteinn Baldursson verði næsti borgarstjóri, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Gísli Marteinn segist þakklátur fyrir að borgarbúar skuli treysta honum fyrir embættinu. Tæpur fjórðungur þeirra, sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Fréttablaðsins vildi Gísla Martein sem borgarstjóra, en hann tilkynnti á sunnudag ákvörðun sína um að sækjast eftir fyrsta sætinu á lista sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Stefán Jón Hafstein, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, var sá einstaklingur sem var næstoftast nefndur sem líklegt borgarstjóraefni og á eftir honum kom Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, varð fjórða í könnun blaðsins, en einungis um tíu af hundraði þeirra sem tóku afstöðu nefndu hana. Gísli Marteinn segist vona að hann nái að slá nýjan tón sem fólki líki við, tón sem sé ólíkur þeim tóni sem sleginn hafi verið í borginni undanfarin ár. Hann segist ánægður og þakklátur fyrir það að borgarbúar skuli treysta honum til að taka við þessu virðulega og vandasama embætti. Ef til kæmi vonist hann til að bregðast ekki væntingum borgarbúa. Hins vegar sé bara um könnun að ræða sem segi í sjálfu sér eitthvað um stöðu manna á þessum tímapunkti en frambjóðendur eigi allir eftir að sýna sig og sanna á næstu vikum og mánuðum. Þá bendir Gísli á að könnunin sé aðallega gerð áður en hann hafi tilkynnt um framboð sitt í fyrsta sæti á sunnudag en hann voni þetta verði upphafið úr þessu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×