Innlent

Íslenskukennsla flyst til Mímis

Námsflokkar Reykjavíkur, sem heyra undir menntasvið Reykjavíkurborgar, munu skrifa undir þriggja ára þjónustusamning um íslenskukennslu fyrir útlendinga sem búsettir eru í Reykjavík, við Mími-símenntun í dag. Þá tekur samningurinn einnig til þróunar kennsluhátta í íslensku fyrir útlendinga. Námsflokkar Reykjavíkur hafa boðið útlendingum upp á íslenskukennslu í yfir áratug en á síðustu árum hafa um 700 útlendingar að jafnaði sótt námskeiðin. Með þjónustusamningnum, sem undirritaður verður í dag, tekur Mímir að sér kennslu þessa hóps en Mímir fær til liðs við sig kennara sem hafa starfað hjá Námsflokkunum og nýtir það námsefni sem þar hefur verið þróað. Gerður Óskarsdóttir, sviðsstjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar, segir nánast alla kennara sem sinntu þessu starfi hjá Námsflokkunum hafa verið ráðna hjá Mími við sömu vinnu. Hún segir kennsluhætti vera í mikilli þróun og að hluti af samningum felist í samvinnu margra aðila að þróun kennsluhátta en auk Mímis og Námsflokkanna mun Kennaraháskólinn koma þar inn sem einn aðili vinnsluferlisins. Þá er möguleiki á að Alþjóðahúsið taki þátt í vinnunni sem og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og fleiri. Björg Árnadóttir, forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur, segir námsmenn geta sótt sömu ef ekki betri þjónustu með nýja fyrirkomulaginu en námsráðgjafar verða staðsettir í þjónustumiðstöðvunum sem eru á fimm stöðum í borginni. Þá segir hún vilja til að auka samstarf við framhaldsskólana til að auðvelda fullorðnu fólki af erlendu bergi brotnu að hefja nám þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×