Innlent

43 prósent hlynnt aðild að ESB

Litlar breytingar virðast hafa orðið á afstöðu Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu eftir að Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskrá sambandsins. Þetta leiðir ný könnun sem IMG Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins í ljós. 43 prósent svarenda í könnuninni reyndust hlynnt Evrópusambandsaðild en 37 prósent andvíg henni. Könnunin sem IMG Gallup gerði var sú fyrsta sem gerð er hér á landi eftir að Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu? 43 prósent svarenda voru hlynnt aðild að sambandinu, 37 prósent andvíg en 20 prósent hvorki hlynnt né andvíg. Í febrúar síðastliðnum voru 45 prósent hlynnt aðild, 34 prósent andvíg og 21 prósent hvorki hlynnt né andvíg. Þá var einnig spurt um afstöðu fólks til aðildarviðræðna við sambandið. 55 prósent svarenda sögðust hlynnt því að taka upp aðildarviðræður, 30 prósent voru því andvíg en 15 prósent hvorki hlynnt né andvíg. Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að þeim sem eru hlynntir því að taka upp aðildarviðræður hafi fækkað nokkuð á síðustu misserum. Enn fremur sögðust 54 prósent svarenda andvíg því að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi í stað íslensku krónunnar, 37 prósent sögðust hlynnt því en 9 prósent hvorki hlynnt né andvíg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×