Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn fær stuðning

"Í fyrra var sjálfseignarfélagsformið málamiðlun milli stjórnarflokkanna en margir sjálfstæðismenn vildu þá hlutafélagsformið. Nú lítur út fyrir að Evrópusambandið hafi gengið í lið með Sjálfstæðisflokknum," segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. Búist er við því að frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið verði lagt fram á Alþingi í haust. Nokkuð hefur verið rætt um að ekki verði lagðar fram tillögur um að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun eins og á síðasta þingi, þar sem eftirlitisstofnun EFTA telji slíkt skekkja stöðu á fjölmiðlamarkaði. "Ég hef ekkert heyrt um þetta nema í útvarpinu því menntamálaráðherra hefur ákveðið að hafa ekki samráð við stjórnarandstöðuna varðandi þessi mál. Það hefur ekkert breyst frá því í fyrra en þess hefur verið óskað og samvinna boðin. Það kemur mér á óvart að heyra þessi rök varðandi EFTA því ég veit ekki til annars en að í Evrópu séu margar almenningsútvarpsstöðvar, eða hvað skyldu menn telja BBC vera?" segir Mörður. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra vildi ekki tjá sig um fyrirhugað frumvarp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×