Innlent

18 milljarðar í hátæknisjúkrahús

Fyrirtækið Skipti ehf. greiddi íslenska ríkinu tæpa 67 milljarða króna í gær fyrir Landssíma Íslands hf., en þar með lauk umfangsmestu einkavæðingu í sögu þjóðarinnar. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Davíð Oddsson utanríkisráðherra kynntu jafnframt í gær áætlun um ráðstöfun fjárins ásamt Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra og Geir Haarde fjármálaráðherra. Liðlega 32 milljörðum króna í erlendri mynt verður varið strax til að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs. Stærsta einstaka framkvæmdin sem ráðist verður í er hátæknisjúkrahús á lóð Landspítalans en 18 milljarðar króna renna til verksins á fjórum árum. Í fyrsta áfanga verður byggt húsnæði fyrir slysa- og bráðaþjónustu sem og rannsóknastarfsemi spítalans. Liðlega 10 af 15 milljörðum, sem ráðgert er að verja til samgöngumála, renna til mannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Sundabraut og breikkun Reykjanesbrautar eru þar stærstu einstöku verkefnin. Öll samgönguverkefnin eru á vegaáætlun og dreifast um allt land. Þremur milljörðum króna verður varið til kaupa á varðskipi og flugvél fyrir Landhelgisgæsluna. Nýsköpunarsjóði eru ætlaðir 2,5 milljarðar króna, þar af einn milljarður þegar á þessu ári. Forsætisráðherra segir að stóraukin framlög til nýsköpunar séu byltingarkennd fyrir sjóðinn. Einum milljarði verður varið nú þegar til umbóta á farsímakerfi landsmanna en alls um tveimur og hálfum milljarði á þremur árum. Einum milljarði verður einnig varið til úrbóta í húsnæðismálum geðfatlaðra. Löks er ráðgert að verja einum milljarði króna til nýbyggingar við Árnastofnun í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands og 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar árið 2011. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar verða útfærðar frekar í frumvarpi sem lagt verður fram í upphafi Alþingis í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×