Innlent

Vönduð málsmeðferð í Baugsmálinu

Jón H. Snorrason saksóknari telur ábendingar dómaranna dæmi um mjög vandaða málsmeðferð í Baugsmálinu. Þær séu fjarri því að vera áfellisdómur um störf ákæruvaldsins, því ekki sé gefið að annmarkar séu á rannsókninni. "Oft eru fundnir einhverjir hnökrar á ákærum og málum því vísað frá í Hæstarétti eða sakborningar sýknaðir af þeim ástæðum. Dómurinn er að koma í veg fyrir að eitthvað slíkt komi upp," segir Jón. Jón segir kappnógan tíma til að gera bót á ákærunum fyrir mánudag, þegar þingað verður í málinu. Liðirnir sem sett sé út á, þar á meðal viðskipti á milli Baugs og Gaums, séu ekki aðalatriði málsins. Enn nái ákærurnar til stórfelldra bókhaldsbrota að upphæð einum milljarði króna sem ekki hafi verið sett út á. Jón segir erfitt að segja hver verði niðurstaða dómsins þegar þingað verði um ákæruliðina átján mánudaginn 12. september. Atriðin sem dómarar bendi á séu ekki augljós. Þau skýrist betur í þinghaldinu og út frá því ákveði ákæruvaldið hvort rétt sé að setja fram nýja ákæru um atriðin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×