Innlent

Geir sækist eftir formannsembætti

Geir H. Haarde, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst bjóða sig fram til formannsembættis í Sjálfstæðisflokknum á komandi landsfundi sem fram fer 13. til 16. október. Aðspurður á blaðamannafundinum í dag sagði Davíð að augu manna beindust óhjákvæmilega að Geir án þess að hann lýsti yfir beinum stuðningi við hann. Geir tekur við embætti utanríkisráðherra af Davíð Oddssyni 27. september næstkomandi. Hann segir eftirsjá í Davíð Oddssyni, en þeir hafi unnið mjög náið saman undanfarin ár. Nú séu nýir tímar og hann gefi kost á sér sem eftirmaður Davíðs í Sjálfstæðisflokknum. Geir segir hins vegar flokksmanna að ákveða hvort af því verði og hann bíði þess sem verða vilji. Geir segir ekki stefnubreytingar að vænta í utanríkisráðuneytinu þegar hann taki við enda fylgi þeir sömu stefnunni í Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórninni. Hann hlakki til að fá að glíma við ný verkefni. Hann hafi löngum haft mikinn áhuga á utanríkismálum og þótt gaman hafi verið að vinna í fjármálaráðuneytinu í sjö og hálft ár, þar sem hann telji sig skila góðu búi, sé líka gaman að breyta til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×