Innlent

Skilur eftir sig stórt skarð

"Þetta eru heilmikil tímamót og ég óska Davíð Oddssyni og hans fjölskyldu alls góðs og fyrst og síðast góðrar heilsu og langra lífdaga," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. "Það má segja að það sé tiltölulega hefðbundið það sem gerist í framhaldinu hvað varðar ráðherrakapalinn. Það eina sem kemur á óvart og ég átti ekki von á var að Davíð Oddsson skuli kjósa að fara í Seðlabankann. Það sem mér finnst mest spennandi við þessi tímamót er hvernig Sjálfstæðisflokknum mun ganga að vinna úr þessum breytingum. Það er alþekkt að flokkar geta átt í vissum erfiðleikum með að fóta sig þegar sterkir foringjar sem hafa farið lengi með völd og stjórnað með býsna harðri hendi, eins og Davíð hefur sannarlega gert, láta af embætti. Ég held að það verði spennandi að fylgjast með því á næstu misserum hvernig Sjálfstæðisflokknum mun reiða af. Allt bendir til þess að flinkur maður taki við af Davíð, þar sem er Geir H. Haarde, og auðvitað er Sjálfstæðisflokkurinn heppinn að því leyti. En það er alveg augljóst mál að þetta gríðarstóra skarð, sem Davíð skilur eftir sig, sérstaklega sem flokksformaður, er vandfyllt. Það á eftir að koma í ljós hvernig innviðir flokksins eru á sig komnir eftir svona langan tíma - hvernig ýmsum gengur að fóta sig þegar þeir koma úr þessum langa skugga og út í dagsljósið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×