Innlent

Ættu að einblína á aðalatriðin

Sigurður Líndal prófessor segir að verði ákæruliðunum átján í Baugsmálinu vísað frá dómi geti ákæruvaldið rannsakað þá aftur og höfðað nýtt mál á hendur forsvarsmönnunum. Hann ræður saksóknara að einblína á aðalatriðin í málinu. "Persónulega finnst mér almennt réttara og heppilegra að leggja áherslu á meginatriði sem þyngstu refsingar liggja við og láta hitt eiga sig, því á Íslandi er ekki bætt við refsingu heldur er miðað við þyngsta refsirammann í dómsmálum," segir hann. Telji ákæruvaldið mikilvæg ákæruatriði liggja innan um liðina átján væri ráð að einblína á að bjarga þeim en láta aðra gossa. Sigurður telur Baugsmálið ekki fallið þrátt fyrir að dómendur telji að svo miklir annmarkar kunni að vera á átján ákæruliðum að úr þeim verði ekki bætt undir rekstri málsins og að dómur verði því ekki kveðinn upp um efni þeirra. Þingað verður í Baugsmálinu eftir hádegi á morgun, þriðjudag. Ákæruvaldinu gefst þá kostur á að leggja fram bragabót á ákæruliðunum átján. Dómendur deildu ekki á 22 ákæruliði í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×