Innlent

Vilja ekki sameiningu bæjarfélaga

Samtökin Áfram, sem verið er að stofna á Norðurlandi, hvetja landsmenn til að hafna sameiningu sveitarfélaga í kosningum eftir mánuð. Þau telja ótækt að ekki sé ákvæði í lögum um að hægt sé að snúa til baka og skilja sveitarfélög í sundur. Samtökin gætu orðið sameiningaráformum stjórnvalda skeinuhætt en víðtækar kosningar fara fram í landinu um sextán sameiningartillögur eftir tæpan mánuð. Hvatamenn að stofnun samtakanna eru íbúar í Svarfaðardal sem sætta sig ekki við ákvörðun Dalvíkurbyggðar um að leggja af skólahald í Húsabakkaskóla, en um 40 manns sóttu undirbúningsfund á sunnudag. Íbúarnir hafa árangurslaust reynt að ná eyrum ráðamanna á undanförnum mánuðum, meðal annars ritað alþingismönnum bréf, en aðeins fengið viðbrögð frá Vinstri - grænum og Frjálslyndum. Þorkell Jóhannsson, einn íbúanna, segir að engin viðbrögð hafi borist frá stjórnarflokkunum önnur en þau sem íbúarnir fengu hjá félagsmálaráðherra þegar honum hafi verið afhentar undirskriftir um málið. Þá hafi hann svarað því að hann myndi ekki beita sér þannig að kröfum íbúanna yrði mætt.  Þessar dræmu undirtektir valda því að íbúarnir blása nú til sóknar og vara landsmenn við að samþykkja sameiningu sveitarfélaga meðan ekki fást sett í lög ákvæði um að hægt sé að snúa til baka. Í ályktun sem samþykkt var um helgina er skorað á alla væntanlega kjósendur að láta ekki bjóða sér þetta heldur fella þessar sameiningar. Þorkell segir reynslu Svarfdælinga ekki einsdæmi og þeir séu vissir um það að á næstu árum muni fleiri standa í sömu sporum og þeir með sárt ennið þrátt fyrir einhvern loforðaflaum um að ekki eigi að hrófla við skólum. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×