Innlent

Óljós afstaða í flugvallarmáli

Samgönguráðherra telur augljóst að innanlandsflugið flytjist til Keflavíkur ef það fer yfirhöfuð úr Reykjavík. Fyrir tveimur vikum sagðist hann þó ekki vilja bera ábyrgð á því. Á fjölmennum fundi um flugvallarmál í Reykjanesbæ í gærkvöldi sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að Keflavík væri eini raunhæfi valkostinn fyrir innanlandsflug ef flugvöllurinn færi frá Reykjavík. Það var Hjálmar Árnason alþingismaður sem boðaði til fundarins og tók fyrstur til máls. Hann sagði forsendur í flugvallarmálum breyttar. Samgöngubætur hefðu orðið á milli Reykjavíkur og Keflavíkur og borgarfulltrúar í Reykjavík virtust sammála um að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýrinni. Því væri rétt að skoða Keflavík sem raunhæfan valkost. Samgönguráðherra steig síðan í pontu og byrjaði á að ítreka þá skoðun sína að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni enn um sinn. Vísaði hann þá bæði til flugöryggis og eins þeirrar enduruppbyggingar sem hefði orðið í Vatnsmýrinni. Almenn samstaða ríkti á fundinum um að ef flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni væri Keflavík eini kosturinn og Sturla var þar engin undantekning. Sagðist að vísu ekki hafa rannsakað þá hugmynd að fara með flugvöllinn til Mosfellsbæjar en það væri skoðun sín að Keflavík væri eini raunhæfi kosturinn fyrir utan Reykavík. Sturla sagði enn fremur að það lægi alveg fyrir að ef ekki væri hægt að hafa innanlandsflugið í höfuðborginni eða í næstu sveitarfélögum þá myndi það flytjast til Keflavíkur. Það hefði hann alltaf sagt.  Fyrir tveimur vikum var Sturla gestur í Íslandi í dag. Þá var hann spurður að því hvort hann þvertæki fyrir það að flugvöllurinn færi til Keflavíkur. Hann svaraði því til að það væri mjög erfið ákvörðun fyrir samgönguráðherra að beina innanlandsfluginu þangað þar sem það hefði verið mat flugrekstraraðila að það myndi leggjast af, og hver vildi taka þá ákvörðun. Ekki hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×