Innlent

Stjórn kvennahreyfingar valin

Bryndís Friðgeirsdóttir var í dag valinn formaður nýrrar kvennahreyfingar innan Samfylkingarinnar sem stofnuð var í Hveragerði í dag. Með Bryndísi í stjórn verða Ragnhildur Helgadóttir, Sigrún Stefánsdóttir og Drífa Kristjánsdóttir, en auk þess mun þingflokkur Samfylkingarinnar skipa eina konu í stjórnina. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum kemur m.a. fram að kvennahreyfingin leggi áherslu á að auka áhrif kvenna jafnt innan Samfylkingarinnar sem í samfélaginu öllu. Hreyfingin telji mikilvægt að nýta þau sóknarfæri sem staða kvenna innan Samfylkingarinnar skapi: Formaður flokksins og þingflokksins séu konur, konur séu helmingur þingmanna Samfylkingarinnar, fjölmennar í sveitarstjórnum og kona gegni starfi borgarstjórans í Reykjavík. Þá telur kvennahreyfingin að enn sé verk að vinna á fjölmörgum sviðum. Afnám misréttis í launum, barátta gegn kynferðislegu ofbeldi og fjölgun kvenna hvarvetna þar sem ráðum sé ráðið eigi að vera forgangsmál þeirra sem vilja jafna stöðu kynjanna. Nýlegar samantektir og kannanir sýni svo ekki verði um villst að enn sé langt í land hvað varðar að staða, völd og áhrif kvenna sé viðunandi í íslensku samfélagi. Þá telur kvennahreyfinging brýnt, í ljósi þess að sveitarstjórnarkosningar eru fram undan, að konur séu virkir þátttakendur og gerendur í stjórnun sveitarfélaga líkt og í landsstjórninni. Kvennahreyfingu Samfylkingarinnar sé ætlað að vera bakland og vettvangur kvenna sem taka þeirri áskorun að starfa sem fulltrúar Samfylkingarinnar á þessum vettvangi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×