Innlent

Vill fjölga valkostum eldra fólks

Ríkisstjórnin mun í þessum mánuði hitta fulltrúa samráðsnefndar eldri borgara til að ræða málefni eins og stöðu þeirra á vinnumarkaðnum. Heilbrigðisráðherra vill fjölga valkostum gamals fólks. Síðustu vikur hefur mikið borið á því að atvinnurekendur auglýsi eftir eldra fólki til starfa í þeirri manneklu sem víða hefur verið. Höfðað er til þeirrar miklu reynslu sem eldra fólk hefur og gjarnan er boðið upp á sveiganlegan vinnutíma. Margt eldra fólk sem gjarnan vildi vinna áfram sér sér það ekki fært vegna mikillar tekjuskerðingar. Aðspurður hvort það komi til greina að hálfu stjórnvalda að auðvelda eldra fólki að fara aftur út á vinnumarkaðinn án þess að skerða tekjur þeirra segir Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra að það sé fagnaðarefni að það eigi val í þesu efni og það sé jákvæð þróun. Fyrirhugaður sé fundur samráðsnefndar aldraðra og ríkisstjórnarinnar síðar í mánuðinum og vafalaust muni þessi mál bera þar á góma. Honum finnist of snemmt að tjá sig um málið fyrr en þeim fundi er lokið enda heyri frítekjumörkin undir annað ráðuneyti.  Jón segir mikilvægt að eldra fólk hafi val þar sem sumir vilji vinna áfram á meðan aðrir kjósi að hætta að vinna fyrr. Hann telji að það sé almennt jákvætt að stuðla að því að fólk geti tekið þátt í atvinnulífinu. Ríkisstjórnin mun síðar í þessum mánuði eiga fund með samráðsnefnd eldri borgara. Sem stendur er hópur starfandi á vegum heilbrigiðsráðuneytisins til að fara yfir málefni eldri borgara. Jón segist ekki sjá fyrir endann á þeirri vinnu en nauðsynlegt sé að halda henni áfram að fullum krafti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×