Innlent

Vilja virkja konur í stjórnmálum

Konur eru ekki eins virkar og karlar í stjórnmálum og þessu þarf að breyta, segja Samfylkingarkonur, sem hafa stofnað kvennahreyfingu innan flokksins. Stofnun kvennahreyfingarinnar hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Með hreyfingunni á að efla þátt kvenna í starfi flokksins og almennt í samfélaginu. Samfylkingarkonum þykir full þörf á að stofna slíka hreyfingu. Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður flokksins, segir sama í hvaða flokk sé litið, konur séu í minnihluta á fundum, flokksstarfi og þar með í umræðunni sem sé svo mikilvæg. Yfir hundrað konur hafa setið stofnfundinn sem staðið hefur síðan í gær. Rannveig segir að þær séu vissar um það að með því að stofna kvennahreyfingu muni þær fá konur til að koma á fundi og ræða málefni kvenna auk þess hreyfingin ætlar að standa fyrir mjög vakandi umræðu við karlmenn í flokknum og utan hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×