Innlent

Bætir engu við yfirlýsingu sína

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, lætur skila því gegnum aðstoðarmann sinn að hann hafi engu við yfirlýsingu sína á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna að bæta um framboð Íslands til öryggisráðsins. Þar sagði Halldór í ræðu að framboð Íslands stæði. Halldór, sem er í fríi í Bandaríkjunum, segir að afstaða ríkisstjórnarinnar sé skýr og yfirlýsing sín hafi verið gefin eftir samráð við verðandi utanríkisráðherra, Geir Haarde. Efasemdarraddir hafa verið háværar innan stjórnarflokkanna upp á síðkastið en í Fréttablaðinu í dag segir Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, að vandinn sé sá hvernig fjölmiðlar fjalli um málið og að stjórnarandstaðan sé að reyna að búa til alvarlegan ágreining milli stjórnmálaflokkanna. Þó sagði Hjálmar í fréttum í gær að það væru skiptar skoðanir um málið innan þingflokksins. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, talaði um ágreining í stjórnarliðinu. Hann sagðist telja að miðað við þá stöðu að Einar Oddur væri kominn í stjórnarandstöðu og að Davíð Oddsson utanríkisráðherra hefði skipt um skoðun eða væri efins væri málið í talsverðu uppnámi í stjórnarflokkunum. Í pistli á heimasíðu sinni segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra að nú gangi forystumenn Framsóknarflokksins fram fyrir skjöldu og telji óvissu ríkja um málið. Þó sjái hann ekki að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hafi getað sagt annað um framboðið á 60 ára afmælisfundi Sameinuðu þjóðanna en hann gerði. Björn Bjarnason segist telja meiri áhættu felast í því að hverfa frá ákvörðuninni sem var tekin 1998 en að halda fast í hana. Með því að snúa við blaðinu væri gefin yfirlýsing um að Ísland treysti sér ekki til annars en standa á hliðarlínunni í alþjóðastjórnmálasamstarfi, segir Björn Bjarnason og spyr: „Væri skynsamlegt fyrir stjórnvöld að gefa slíka yfirlýsingu á sama tíma og lögð er áhersla á útrás á öllum sviðum?“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×