Innlent

Halldór tapar trúnaði flokksins

Framsóknarmenn, innan sem utan ríkisstjórnarinnar, segja að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður flokksins, njóti ekki lengur nægilegs trúnaðar og þurfi jafnvel að víkja, eigi að tryggja Framsóknarflokknum gott gengi í næstu þingkosningum. Með yfirlýsingu sinni á þingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann lýsti yfir framboði Íslands til öryggisráðsins, hafi Halldór enn og aftur tekið ákvörðun sem ekki hafi verið samþykkt í þingflokknum. Framsóknarmenn eru ósáttir við framgöngu Halldórs af tveimur ástæðum. Annars vegar eru margir í grasrótinni óánægðir með ákvörðunina sjálfa og eru á móti því að Íslendingar taki sæti í ráðinu. Hins vegar er óánægja í þingflokknum yfir því að Halldór skuli hafa lýst framboði Íslands yfir og þar með gert Framsóknarflokkinn ábyrgan fyrir ákvörðuninni í stað þess að leita eftir þeirri þverpólitísku samstöðu sem auðveldlega hefði átt að nást um málið, eða jafnvel að láta Geir H. Haarde, tilvonandi utanríkisráðherra, um yfirlýsinguna eins og Davíð Oddsson, fráfarandi utanríksiráðherra, hafði lagt til. Heimildarmenn úr þingflokknum óttast að með því að lýsa yfir framboðinu hafi Halldór því gert Framsóknarflokkinn ábyrgan og að öll sú gagnrýni sem upp geti komið, annars vegar vegna kostnaðarins sem af framboðinu hlýst og hins vegar ef við náum ekki sæti, beinist þá að Framsóknarflokknum einum, en hann megi síst við því. Heimildarmenn Fréttablaðsins, innan sem utan ríkisstjórnarinnar, ganga jafnvel svo langt að segja að öll forysta flokksins þurfi að fara frá því hún hafi gerst sek um að koma flokknum í þau vandræði sem hann er nú í, með því að tryggja ekki að samráð hafi verið um stór mál innan flokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×