Innlent

Frávísun vekur athygli erlendis

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa ákærum í Baugsmálinu frá vakti athygli ýmissa erlendra fjölmiðla í gær, þar á meðal fréttastofanna Associated Press, Reuters og Bloomberg. Í frétt á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC er sagt frá því að Baugur Group hafi "hægt á útþensluáformum" sínum í Bretlandi vegna málshöfðunarinnar en fyrirtækið sé engu að síður staðráðið í að gera sig enn meira gildandi í verslanarekstri þar í landi. Bæði í frétt BBC og fréttastofanna er rakið að lögreglurannsóknin hafi valdið því að ekkert hafi orðið af aðild Baugs að kaupum á Somerfield-verslanakeðjunni. Í frétt Reuters er haft eftir Gesti Jónssyni, lögmanni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, að úrskurður dómsins sé "mikið áfall fyrir saksóknarann", sem muni áfrýja málinu til Hæstaréttar. Í frétt AP er rifjað upp að Jón Ásgeir hafi sagt að lögreglurannsóknin væri af pólitískum rótum runnin. Þá er einnig vitnað til þess að Ríkisútvarpið hafi haft eftir honum að hann hygðist fara í skaðabótamál gegn íslensku lögreglunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×