Innlent

Slítur sundur friðinn

Arnar Jensson lögreglumaður tjáði sig um svokallað Baugsmál í sjónvarpinu í gær. Orðræða hans þar var á köflum með slíkum endemum að maður efaðist um að þessi maður væri staddur á sömu öld og í sama veruleika og við hin. Margir hafa sjálfsagt séð þetta og heyrt en mig langar samt að staldra við fáein atriði, þar sem málið er mér skylt. Ástæða viðtalsins er augljóslega sú að yfirstjórn Ríkislögreglustjóra hefur ekki þolað þá gagnrýni, sem hún hefur hlotið í fjölmiðlum undanfarna daga. Vegna þess hefur sú ákvörðun verið tekin að senda Arnar lögreglumann út á akurinn svo þjóðin gæti öðlast „rétta" sýn á Baugsmálið. Það er greinilega ekki liðið að þessir vesalings einstaklingar, sem hafa verið sakborningar í ónýtri rannsókn RLS sl. þrjú ár æmti undan valdinu, þegar niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um ónýti þessa máls liggur fyrir. „Sannleikanum" skal komið inn hjá þjóðinni. Í byrjun Kastljóssþáttarins var lögreglumaðurinn inntur eftir upphafi málsins og söfnun sakarefna í framhaldi þess. Þáttarstjórnandi, Sigmar Guðmundsson spurði: ´´Þannig að þið farið þarna inn og veltið við hverjum steini og skoðið á bak við hverja einustu ...´´ Og Arnar lögreglumaður svarar: ´´ Nei, nei, nei við fórum inn til þess að takast á við tiltekin tvö sakarefni en þegar við erum að rannsaka þau þá koma í ljós ýmis önnur atriði eins og til dæmis færslur milli reikninga, eins og til dæmis lánveitingar sem eru skráðar á viðskiptamannareikninga og svo framvegis. Eins og þið hafið séð í þessari ákæru og það er bara eðlileg þróun í málinu. Þetta er bara mjög hefðbundið og er ekkert sérstakt í þessu máli. Mjög algengt að svona gerist, svona verði sakarefni til og til þess er ákærandinn að rétta okkur af og meta er þetta nægilegt til þess að taka það upp eða ekki.´´ (leturbreyting mín). Ja, nú rífur í svo um munar! Starfa rannsóknarmenn lögreglunnar eftir öðrum lögum og reglum en aðrir landsmenn? Sannast enn orð Þorgeirs ljósvetningagoða „Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum og slíta friðinn"? Lið lögreglunnar gerði leit í húsakynnum Baugs hf. vegna tveggja tilgreindra sakarefna og komst við þá iðju á snoðir um færslur á milli reikninga og lánveitingar sem skráðar voru á viðskiptamannareikninga. Líklega leituðu þeir með sömu áfergju og mælt er fyrir um í gömlum lagatexta Grágásar þar sem því er lýst hvernig leita skuli líkamsleifa í kirkjugarði sem á að færa, en sagt er þar að leitarmenn skuli: „ … leita svo beina sem þeir mundu fjár ef þar væri von í jörðu." Framhald málsins (hið þriggja ára langa rannsóknarmaraþon og ákæra sem hvorki sakborningar, verjendur né dómarar geta fest hendur á) var svo bara „eðlilegt" og mjög svo „hefðbundið" að mati lögreglumannsins. Fróðlegt væri að heyra hann færa rök fyrir þessum orðum. Hvenær varð það saknæmt eða tortryggilegt athæfi að færa færslur á milli reikninga og skrá lánveitingar á viðskiptamannareikninga? Hvað er þetta „og svo framvegis" sem lögreglumaðurinn dylgjar með? Allir sem þekkja hið minnsta til fyrirtækjareksturs og viðskipta vita það að millifærslur og færsla lánveitinga á viðskiptamannareikninga eru hvorttveggja allsendis löglegar ráðstafanir og ærið algengar. Ætli þeir séu ekki orðnir bara fáir Íslendingarnir sem aldrei hafa gert eða látið gera millifærslu? Við sem mest kynni höfum haft af Baugsmálinu svonefnda vitum hvers konar endileysa það er í heild sinni og þekkjum öll ólíkindin og útskryppisháttinn sem hafa einkennt það allt frá upphafi. Manni er því jafnan ekki hlátur eða glens í huga þegar þetta mál ber á góma. Hjákátleg frammistaða Arnars lögreglumanns í sjónvarpinu þótti mér þó í aðra röndina brosleg og eymdarlegur væll hans í dag undan þeirri gagnrýni sem hann og aðrir hjá RLS hafa orðið fyrir upp á síðkastið. Hvað mættum við þá ekki segja? Miðað við þau viðhorf sem birtust hjá Arnari lögreglumanni væri RLS áreiðanlega kærast að gefa út eina allsherjar ákæru á hendur öllum forráðamönnum félaga í landinu og hinum varhugaverðu endurskoðendum þeirra sem sitja við sveittir að skrifa upp á allar hinar saknæmu millifærslur. Þar sem hér verður sjálfsagt um nokkur þúsund manns að ræða væri gráupplagt að hafa réttarhöldin á Þingvöllum, hinum forna alþingisstað, en utan vébanda. Svo gæti vasavanur dómari fengið að dæma hyskið í útlegð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×