Innlent

Höfðu samráð um kæru gegn Baugi

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og Jón Steinar Gunnlaugsson, nú hæstaréttardómari, funduðu um mál Jóns Geralds Sullenberger gegn Baugi í júní 2002, tveimur mánuðum áður en Jón Steinar lagði fram kæru fyrir hönd Jóns Geralds gegn forsvarsmönnum Baugs. Fréttablaðið hefur undir höndum margs konar gögn sem sýna að Styrmir Gunnarsson, Jónína Benediktsdóttir og Jón Gerald Sullenberger höfðu unnið að undirbúningi málaferlanna gegn forsvarsmönnum Baugs að minnsta kosti frá því í maí þetta sama ár. Styrmir staðfestir í samtali við Fréttablaðið að hafa haft milligöngu um að koma á sambandi á milli Jóns Geralds og Jóns Steinars. Jón Steinar Gunnlaugsson sagðist í gær ekki vilja tjá sig um málið og þegar gengið var á hann kaus hann að slíta samtalinu. Jónína Benediktsdóttir greip til sömu ráða og Jón Steinar og sleit símtalinu án þess að svara nokkru efnislega. Í tölvupósti sem Styrmir sendir Jónínu að kvöldi 1. júlí 2002 segir: "Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af þessu með Jón Steinar. Hann er algjörlega pottþéttur maður. Þegar ég talaði um þetta mál við Jón Steinar hafði ég Kjartan með. Þetta er eins innmúrað og innvígt eins og nokkur hlutur getur verið. Ég þekki hins vegar ekki samband Jóns Steinars og Tryggva og mun kanna það. En það er alveg sama hvaða menn Jón Steinar þekkir. Tryggð hans við ónefndan mann er innmúruð og ófrávíkjanleg og þess vegna þurfið þið Jón Gerald ekki að hafa nokkrar áhyggjur." Styrmir staðfestir að hann eigi við Kjartan Gunnarsson en neitar að gefa upp hver ónefndi maðurinn er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×