Innlent

Vatnið að sjatna á götum Hafnar

Töluvert hefur sjatnað í vatninu á götum Hafnar í Hornafirði eftir einn mesta vatnselg í manna minnum í gær. Þá flæddi inni tíu til fimmtán hús í bænum og höfðu bæjarstarfsmenn og slökkvilið í nógu að snúast að dæla vatninu burt og var vatn eins metra hátt á sumum stöðum í bænum. Rigningunni slotaði í nótt eftir að það hafði rignt stanslaust í nær tvo sólarhringa og að sögn lögreglu sjatnaði vatnið af sjálfu sér í kjölfarið. Lögregla segir þó að enn sé nokkuð vatn á vegum í bænum og er það hnédjúpt þar sem það er dýpst. Unnið var við dælingu úr húsum fram undir miðnætti í gær og er henni að mestu lokið en lögregla segir að ekki sé farið að meta skemmdirnar af völdum flóðanna, en ljóst er að þær eru nokkrar. Veðurspár gerðu ráð fyrir að aftur færi að rigna í dag en nú mun aðeins vera örlítill úði í bænum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×