Innlent

Störf sjúkraflutningamanna trufluð

Nítján ára piltur hlaut alvarlega höfuðáverka þegar ekið var á hann á Hverfisgötu í gærkvöld. Fjarlægja þurfti ungmenni af slysstað sem trufluðu starf lögreglu og sjúkraflutningamanna. Pilturinn var í hópi ungmenna og var áfengi um hönd, segir lögregla. Málið er enn í rannsókn en vitni segja að átök hafi átt sér stað. Í kjölfarið virðist sem pilturinn hafi annað hvort farið út á götuna, verið ýtt eða dottið, þegar bíll kom keyrandi eftir götunni. Ökumaður var 21 árs gömul stúlka. Sjúkralið og lögregla var kölluð til en að sögn lögreglu var töluvert uppnám meðal ungmennanna og átök sem truflaði vinnu sjúkraflutningamanna og lögreglu á vettvangi. Sökum ástands fólksins voru þrír handteknir og færðir á lögreglustöð. Þar var þeim boðin áfallahjálp, sem þau þáðu, og munu hafa farið á slysadeild í þeim tilgangi. Pilturinn var fluttur á slysadeild og þaðan á gjörgæslu. Hann er nú á batavegi og útskrifaður af gjörgæslu. Málið er rannsakað sem slys.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×