Innlent

Skilar mun fleiri sératkvæðum en aðrir dómarar

Á því ári sem Jón Steinar Gunnlaugsson hefur starfað sem hæstaréttardómari hefur hann skilað mun fleiri sératkvæðum en aðrir hæstaréttardómarar.

Í dag er eitt ár frá því Jón Steinar Gunnlaugsson tók sæti í Hæstarétti. Skipun Jón Steinars í embætti hæstaréttardómara var umdeild þótt flestir teldur hann hæfan. Fyrir nokkrum árum skrifaði Jón Steinar bók þar sem hann deildi á íslenska dómara. Fannst honum meðal annars búið að slaka á sönnunarkröfu um sekt í sumum málaflokkum.

En hvernig skyldi Jón Steinar hafa fallið inn í hópinn sem hann gagnrýndi? Á því ári sem Jón Steinar hefur gegnt embætti hæstaréttardómara hefur hann skilað fjórtán sératkvæðum á meðan þeir sem næst honum koma hafa skilað fjórum sératkvæðum en það eru þeir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen. Þau Hrafn Bragason og Guðrún Erlendsdóttir sem lengst hafa starfað við Hæstarétt hafa skilað tveimur og einu sératkvæði. Á sama tíma hefur forseti Hæstaréttar, Markús Sigurbjörnsson, ekki skilað sératkvæði. Ingibjörg Benediktsdóttir hefur skilað þremur sératkvæðum, Árni Kolbeinsson einu og Ólafur Börkur Þorvaldsson tveimur.

Það að Jón Steinar hafi skilað flestum sératkvæðum kemur fæstum á óvart. Rökstuðningur Jón Steinars fyrir sératkvæðunum þykir mörgum vera sterkur. Sumir segja Jón Steinar hafa gefið Hæstarétti aukið líf og jafnvel að hann hafi hrist upp í meðdómendum sínum. Aðrir eru ósáttir við að sératkvæði séu mikið notuð og segja það veikja dóminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×