Innlent

Skortur á lagaramma um eldri námur

Frá Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli.
Frá Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli.

Skortur á lagaramma um eldri námur, eins og Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli, varð til þess að bæjarstjórn Ölfus ákvað að leyfa efnistöku á brún Ingólfsfjalls. Bæjarstjóri Ölfuss kallar eftir lagasetningu um námurnar.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að stöðva skyldi efnistöku á brún Ingólfsfjalls til bráðabirgða. Það var gert eftir stjórnsýslukæru Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands sem hafa krafist þess að framkvæmdaleyfi verktakafyrirtækisins Fossvéla til efnistöku verði fellt úr gildi.

Það framkvæmdaleyfi gaf bæjarstjórn sveitarfélagsins Ölfuss út þvert á úrskurð Skipulagsstofnunar sem taldi efnistökuna hafa veruleg neikvæð, varanlega og óafturkræf sjónræn áhrif á landslagið. Hefur verið bent að með efnistökunni muni fjallsbrún Ingólfsfjalls færast innar og lækka um áttatíu metra.

Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir að bæjaryfirvöld hafi staðið frammi fyrir vanda þar sem valið hafi staðið á milli þess að fara til austurs eða vesturs í Ingólfsfjalli eða sækja efni ofar í fjallið.

Í Ölfusi eru stærstu námur landsins en auk Þórustaðanámu er þar einnig að finna stórar námur í Lambafelli og Bolöldu. Hann segir engan lagaramma gilda um þessar eldri námur og umfjöllun um námurnar sé að hans mati oft ósanngjörn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×