Innlent

Golfvöllur og vatnsverksmiðja stóriðjan í Þorlákshöfn

MYND/Einar Elíasson

Hafist verður handa við nýjan strandgolfvöll við Þorlákshöfn á næstu mánuðum þar sem hönnun hans er lokið. Bæjarstjóri Ölfuss segir völlinn og fyrirhugaða vatnsverksmiðju stóriðju Þorlákshafnarbúa sem geti skapað hátt í hundrað störf.

Töluverð uppbygging hefur verið í Þorlákshöfn undanfarin misseri og þar rís nú hvers einbýlishúsið á fætur öðru. Svo virðist sem fólk af höfuðborgarsvæðinu sé farið að sækjast eftir lóðum í bænum enda eru þær ódýrari þar. Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, segir að menn fái grunn undir einbýlishús í Þorlákshöfn fyrir um fimm milljónir króna með gatnagerðargjöldum og öllu.

Ólafur Áki segir atvinnuástandið í bænum með ágætum þótt atvinnutækifærin mættu vera fjölbreyttari. Að því er nú unnið því þegar er stefnt að uppbyggingu vatnsverksmiðju við bæinn. Þá er búið að hanna strandgolfvöll á heimsmælikvarða sem standa mun á söndunum austn núverandi vallar, en þar var enginn annar en hinn heimsfræði kylfingur Nick Faldo sem það gerði.

Ólafur Áki segir verið að leggja lokahönd á fjármögnun vallarins og hafist verði handa innan ekki svo margra mánaða. Næsta vor verði vinna við völlinn kannski komin á fullt.

Kostnaður við völlinn verður um einn milljarður en hann mun væntanlega skapa bænum töluverðar tekjur. Ólafur Áki segir golfvöllinn stóriðju Þorlákshafnarbúa og breyti bænum gífurlega mikið samhliða vatnsverksmiðjunni. Þá verði komin tvö fyrirtæki sem skaffi upp undir 100 manns vinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×