Innlent

Hluti úrskurðar setts ráðherra felldur úr gildi

Frá Þjórsárverum.
Frá Þjórsárverum. MYND/E.Ól

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi þann hluta úrskurðar setts umhverfisráðherra í tengslum við Norðlingaölduveitu að gerð set- og miðlunarlóns norðan og vestan Þjórsárvera þyrfti ekki að sæta umhverfismati.

Það var Áhugahópur um verndun Þjórsárvera ásamt Hjörleifi Guttormssyni sem höfðaði málið á hendur íslenska ríkinu, Skipulagsstofnun og Landsvirkjun. Farið var fram á það að úrskurður Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra og Skipulagsstofnunar vegna framkvæmda við Norðlingaölduveitu yrðu ógiltir.

Í úrskurði ráðherra var meðal annars gert ráð fyrir að vatnsborð Norðlingaöldulóns yrði lækkað og allt lónið yrði þannig utan friðlands Þjórsárvera. Jafnframt að gert yrði set- og miðlunarnlón norðan og vestan við Þjórsárver og veituskurð í Þjórsárlón til að hefta aurburð. Taldi settur umhverfisráðherra að hið nýja lón þyrfti ekki í umhverfismat en því er héraðsdómur ósammála. Ekki var hins vegar fallist á kröfu um ógildingu úrskurðar Skipulagsstofnunar og setts umhverfisráðherra.

Samkvæmt dóminum ber að setja set- og miðlunarlónið í umhverfismat og þá var íslenska ríkinu og Landsvirkjun gert að greiða stefnendum eina og hálfa milljón króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×