Innlent

Hraðakstursbrotum fjölgar mikið í V-Skaftafellssýslu

Sjötíu prósentum fleiri ökumenn hafa verið teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Vík í Mýrdal á fyrstu átta mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Nærri helmingur þeirra sem teknir hafa verið eru erlendir ökumenn.

Þetta kemur fram í tölfræði sem lögreglan hefur tekið saman vegna tíðra frétta af hraðakstri í umdæminu. Í ágústlok 2005 höfðu 460 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu en á þessu ári eru þeir orðnir 779. Af þeim eru 325 erlendir ökumenn eða 42 prósent allrar ökumanna sem lögreglan hefur kært vegna hraðaksturs á þessu ári. Afskipti lögreglu af erlendum ökumönnum vegna hraðaksturs hefur aukist gífurlega frá árinu áður eða um 137 prósent .

 

Lögreglan í Vík hefur boðið erlendum ökumönnum að ljúka sínum málum á staðnum með greiðslu sekta og það sem af er árinu hafa erlendir ökumenn greitt tæpar 5 milljónir króna í sektir vegna hraðaksturs í V-Skaftafellssýslu.

Fjöldi umferðaróhappa er hins vegar svipaður fyrstu átta mánuði ársins miðað við sama tímabili frá árinu áður en þar koma erlendir ökumenn koma við sögu í um 35 prósentum tilfella.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Vík segir að hert eftirlit eigi vissulega stóran þátt í því að fjöldi kærðra ökumanna í umdæminu hefur aukist svo mikið. Engu að síður sé það áhyggjuefni hversu mikil aukningin sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×