Innlent

Sex manns í gæsluvarðhaldi vegna fjögurra fíkniefnamála

Sex manns sitja í gæsluvarðhaldi og hald hefur lagt á umtalsvert magn fíkniefna í fjórum stórum fíkniefnamálum sem komið hafa til kasta lögreglunnar á stuttum tíma.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að upp hafi komist um málin í samstarfi tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og lögreglunnar í Reykjavík sem annast hefur rannsókn þeirra. Þá hefur rannsókn tveggja þessara mála verið unnin í nánu samstarfi með lögreglunni í Kaupmannahöfn.

Fyrsta málið kom upp þann 12. október þegar tveir íslenskir karlmenn um fertugt komu til landsins frá Kaupmannahöfn. Við leit tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli kom í ljós að þeir höfðu falið töluvert magn kókaíns í skóm sínum. Lögreglan í Reykjavík sem annast rannsókn málsins fékk mennina úrskurðaða í gæsluvarðhald. Þeir hafa verið látnir lausir. Daginn eftir var íslenskur karlmaður á þrítugsaldri stöðvaður í flugstöðinni

, einnig við komu frá Kaupmannahöfn. Verulegt magn kókaíns fannst í skóbotnum hans. Manninum var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi að kröfu lögreglunnar í Reykjavík sem annast rannsókn málsins.

Í framhaldi af þessum málum voru tveir grunaðir samverkamenn þeirra handteknir og sæta þeir gæsluvarðhaldi nú.

Í þriðja málinu hafði lögreglan í Kaupmannahöfn samband við lögregluna á Keflavíkurflugvelli og óskaði eftir því að íslenskt par sem von var á til landsins frá Kaupmannahöfn yrði handtekið við komu þess til Íslands. Ástæða þess var sú að í tösku sem þeim tengdist á flugvellinum í Danmörku fannst verulegt magn amfetamíns. Lögreglan í Reykjavík annast rannsókn þess máls í nánu samstarfi með lögreglunni í Kaupmannahöfn.

Fjórða málið kom upp þann 19. október þegar tveir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir í tengslum við rannsókn á innflutningi á umtalsverðu magni af fíkniefnum með hraðsendingu sem kom frá Danmörku. Þeir sæta nú gæsluvarðhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×