Innlent

Sekt fyrir ósiðlegt athæfi gagnvart frænku sinni

Karlmaður hefur í Héraðsdómi Reykjaness verið dæmdur til að greiða 200 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa sýnt frænku sinni ósiðlegt og ruddalegt athæfi með því að taka fjórar myndir af henni á meðan hún svaf í nærbuxum og bol einum fata.

Málið kom til kasta barnaverndaryfirvalda í fyrra eftir að stúlkan fann eina myndanna inni í skáp hjá frænda sínum. Lögregla gerði í framhaldinu húsleit hjá manninum og fann þrjár myndir til viðbótar af stúlkunni sofandi og fáklæddri. Í tölvu hans fundust jafnframt nokkrar myndir sem komu úr seríu þekktra barnaklámsmynda.

Fram kemur í dómnum að stúlkan hafi oft gist hjá ákærða og játaði hann að hafa tekið myndirnar en hélt því fram að stúlkan hefði verið vakandi þegar þær voru teknar. Á það féllst dómurinn ekki og segir í dómsniðurstöðu að brotið verði að teljast sérlega ósiðlegt þar sem stúlkan var sofandi er myndirnar voru teknar og því ekki í ástandi til að veita samþykki sitt fyrir myndatökunni.

Ákærði hafi notið trausts, virðingar og vináttu stúlkunnar og fjölskyldu hennar sem hann hafi brugðist gróflega með athæfi sínu. Var maðurinn sem fyrr segir dæmdur til að greiða 200 þúsund krónur í sekt og frænku sinni jafnháa fjárhæð í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×