Innlent

Á ríflega tvöföldum hámarkshraða í Hvalfjarðargöngum

MYND/Pjetur

Nærri 160 ökumenn voru myndaðir vegna hraðaksturs í Hvalfjarðargöngunum um síðustu helgi samkvæmt lögreglunni í Reykjavík. Meðalhraði hinna brotlegu var 89 kílómetrar á klukkustund en sá sem hraðast ók mældist á 146 km hraða sem er ríflega tvöfaldur hámarkshraði. Viðurlög fyrir slíkan ofsaakstur eru 70 þúsund króna sekt og ökuleyfissvipting til þriggja mánaða.

Þá var á annan tug ökumanna stöðvaður fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í gær. Sá sem hraðast ók mældist á 129 km hraða í Ártúnsbrekkunni. Viðkomandi ökumaður er 17 ára piltur sem hefur einu sinni áður verið stöðvaður fyrir hraðakstur. Lögregla hafði auk þess afskipti af áttræðum karlmanni sem ók bíl sínum ölvaður en hann hefur lítið sem ekkert komið við sögu hjá lögreglunni áður, eins og segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×