Innlent

Dæmdur fyrir kókaínsmygl

MYND/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa reynt að flytja inn tæp sjö hundruð grömm af kókaín til landsins í mars á þessu ári sem ætluð voru til söludreifingar.

Fíkniefnunum kom maðurinn fyrir í tölvu sem hann flutti með sér í flugi frá Bandaríkjunum en tollverðir á Keflavíkurflugvelli fundu efnin við leit. Maðurinn játaði sök fyrir dómi og bar að hann hefði komist í kynni við mann í Flórída sem hann hefði ætlað að útvega fíkniefni. Maðurinn hefði hins vegar aldrei fengið fíkniefnin og því hótað ákærða, meðal annars varðandi börn hans. Til þess að losna úr málinu sagðist ákærði hafa þurft að flytja efnin frá Miami til Íslands en hann hafi ekki átt að fá neitt greitt fyrir að flytja þau.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að brotið hafi beinst að mikilsverðum hagsmunum og þá hafi styrkleiki efnanna verið mikill. Hins vegar var einnig horft til þess að ákærði hefði játað brot sitt hreinskilnislega og ekki hefði annað komið fram í málinu en að ákærði hefði aðeins komið að því að búa um efnin ytra og flytja þau til landsins. Þótti því 18 mánaða fangelsi hæiflegur dómur en frá því dregst um tveggja vikna gæsluvarðhald. Þá var ákærði dæmdur til að greiða um 725 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×