Innlent

Hannes sýknaður af kröfum vegna brota á höfundarlögum

MYND/Hari

Hannes Hólmsteinn Gissurarson var sýknaður í Héraðsdómi í gær af öllum kröfum Auðar Sveinsdóttur, ekkju Halldórs Laxness, vegna brota á höfundarlögum. Dómari taldi þrátt fyrir það að Hannes væri brotlegur.

Auður taldi gróflega brotið á höfundarlögum í 1. bindi ævisögu Halldórs Laxness, sem út kom 2003 og skrifuð var af Hannesi. Hún höfðaði því mál þar sem hún hétl því fram að bókin hafi að miklu leyti verið endursögn á endurminningarbókum Halldórs en tilvísun í heimildir verið ábótavant. Auður krafðist því refsingar samkvæmt höfundalögum, miska- og skaðabóta.

Dómari féllst á að meðferð Hannesar Hólmsteins á verkum Halldórs væri ófullnægjandi og brot á höfundarrétti. Hins vegar beri samkvæmt almennum hegningalögum að höfða mál sem þetta innan sex mánaða frá því vitneskja fæst um brotið. Sá frestur hafi löngu verið liðinn. Þetta var í annað sinn sem Héraðsdómur tekur málið fyrir en dómurinn vísaði málinu frá á síðasta ári en Hæstiréttur hnekkti þeim úrskurði í september 2005 að hluta og sendi málið heim í hérað á ný.

Í samtali við fréttastofu fyrir hádegi vildi Auður Laxness, ekkja Halldórs, ekki tjá sig og ekki náðist í lögmann hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×