Innlent

700 þúsund króna sekt fyrir illa meðferð á hrossum

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann til greiðslu 700 þúsund króna sektar vegna illrar meðferðar á hrossum. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa síðla árs 2005 og í janúar og febrúar 2006, vanrækt gróflega aðbúnað, umhirðu og fóðrun á ellefu hrossum sem voru í hans umsjá en fjórum þeirra þurfti að lóga vegna þess hve horuð þau voru.

Hann var jafnframt ákærður fyrir að hafa fjarlægt sjö hrossanna úr hesthúsi og síðan ítrekað neitað að greina héraðsdýralækni og lögreglu frá því hvar þau voru niðurkomin eftir að héraðsdýralæknir og yfirdýralæknir ákváðu að aflífa þau.

Fram kemur í dómnum að allt frá því í febrúar 2004 fram til febrúar 2006 hafi ítrekað verið gerðar athugasemdir við aðbúnað hrossa hjá ákærða og taldi dómurinn sannað að ástand hrossanna ellefu hefði verið svo slæmt að að það varðaði við dýraverndunarlög. Hins vegar var maðurinn sýknaður af ákæru um að hafa fjarlægt sjö hrossanna þar sem verknaðarlýsing var ekki réttilega færð til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að maðurinn hefði ekki komist í kast við lögin áður en á móti kom að vanhöld á fóðrun, beit og aðbúnaði hefðu verið viðvarandi í þó nokkuð langan tíma áður en gripið var til þess að farga gripum. Þótti 700 þúsund króna sekt hæfileg refsing eða 34 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.

Jafnframt var farið fram á það að maðurinn yrði sviptur heimild til að eiga og halda búfénað ævilangt en á það var ekki fallist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×