Lögreglan á Selfossi handtók fjóra, yfirheyrði sex á staðnum, og lagði hald á nokkuð af fíkniefnum í þremur húsum í Árneshverfinu í uppsveitum Árnessýslu í gær.
Upphaflega var tilkynnt um að bíll hefði farið út af en þegar lögreglumenn og sjúkraflutningamenn voru að hlynna að ökumanni brjálaðist hann skyndilega og réðst á þá. Leiddi þá hvert málið af öðru og kallaði Selfosslögreglan eftir aðstoð manna frá Ríkislögreglustjóra og Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli, sem mættu á vettvang með fíkniefnahund. Yfirheyrslum lauk ekki fyrr en undir miðnætti og verður málið rannsakað frekar.